Carlo Ancelotti, þjálfari knattspyrnuliðsins Real Madrid á Spáni hefur fengið þau skilaboð að hann þurfi á þjálfaranámskeið ætli hann sér að halda áfram að þjálfa.
Þannig er mál með vexti að þjálfararéttindi Ítalans runnu út um síðustu áramót og hefur knattspyrnusamband Evrópu sent honum bréf með aðvörun um að endurnýja þau.
Ancelotti hefur þjálfað stórlið eins og Juventus, AC Milan, Bayern München, Chelsea og PSG og unnið m.a. Meistaradeildina í þrígang. Athyglisvert er að þjálfari með slíka reynslu þurfi að setjast á skólabekk en þannig eru skilaboð UEFA.