Albert Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu er á leið frá AZ Alkmaar í Hollandi til Genoa á Ítalíu.
Hollenski knattspyrnuvefurinn Voetbal International greinir frá því að Albert muni fara til Genoa í dag fyrir 1,2 milljónir evra en AZ hefði ekkert fengið fyrir hann í sumar þegar samningur hans við félagið átti að renna út.
Albert er á sínu fjórða tímabili með AZ sem keypti hann af PSV Eindhoven sumarið 2018 fyrir tæpar tvær milljónir evra. Hann hefur í vetur leikið 19 af 20 leikjum liðsins í hollensku úrvalsdeildinni, tólf þeirra í byrjunarliðinu, og skorað fjögur mörk. Þá hefur Albert skorað tvö mörk í átta Evrópuleikjum á tímabilinu.
Genoa er næstneðst í ítölsku A-deildinni, nítjánda af tuttugu liðum, og á erfiða fallbaráttu fyrir höndum en liðið er fimm stigum frá öruggu sæti þegar fimmtán umferðum er ólokið.
Albert mun því feta í fótspor langafa síns og alnafna en Albert Guðmundsson eldri lék fyrstur Íslendinga í ítölsku A-deildinni þegar hann spilaði með AC Milan tímabilið 1948-49.