Íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson er genginn í raðir ítalska A-deildarfélagsins Genoa. Albert er keyptur frá hollenska félaginu AZ Alkmaar, þar sem hann hefur leikið frá sumrinu 2018.
Kaupverðið er um ein milljón evra og mun Albert klæðast treyju númer 11. Ekki hefur enn verið gefið upp til hve langs tíma Albert semur.
Genoa er í vandræðum í ítölsku A-deildinni þar sem það er í 19. sæti, fallsæti, fimm stigum frá öruggu sæti.
Liðið er búið að semja við nokkra leikmenn til viðbótar í dag þar sem það mun freista þess að bjarga sér frá falli.
„Við erum ánægðir með að hafa fengið til okkar ungan leikmann eins og Albert sem er með mikla reynslu og mun hjálpa okkur í baráttunni fram undan,“ sagði Johannes Spors, framkvæmdastjóri Genoa í samtali við heimasíðu félagsins.
Albert lék á ferli sínum 98 leiki fyrir Alkmaar í öllum keppnum þar sem hann skoraði 24 mörk og lagði upp önnur tíu.
Hann á 29 A-landsleiki að baki og hefur skorað í þeim sex mörk.
🔴🔵 Albert #Gudmundsson è Rossoblù!
— Genoa CFC (@GenoaCFC) January 31, 2022
📝 https://t.co/VyCtdNLj9L pic.twitter.com/Q20Ni4UJ42