Avram Grant, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea, West Ham United og Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni, hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi af fjölda kvenna.
Grant, sem hefur einnig þjálfað karlalandslið heimalands síns Ísraels og Gana, er sagður hafa reynt að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart fjölda kvenna með því að reyna að þvinga þær til samræðis.
Frá þessu var greint í ísraelska fréttaþættinum Exposure sem var sýndur á Stöð 12 þar í landi í gærkvöldi og Times of Israel greindi frá.
Blaðamaðurinn Haim Etgar ræddi þar við fjölda kvenna sem höfðu allar svipaða sögu að segja af áhrifamiklum manni sem bauðst til þess að hjálpa ungum konum til að komast áfram í atvinnulífinu myndu þær veita honum kynferðislega greiða á móti og að hann hafi þrýst á þær þar til þær hafi látið undan.
Nokkrar þeirra lýsa því að þær hafi ekki þorað að segja nei við hann.
„Ég sagði nei milljón sinnum en hann hélt áfram að þrýsta og þrýsta. Mér leið eins og ég þyrfti að láta undan svo hann myndi sleppa mér lausri,“ sagði ein kona en bætti við að Grant hafi ekki beitt sig líkamlegu ofbeldi.
Þvingaði hann hana þó til samræðis, sem er ein tegund kynferðisofbeldis.
Önnur kona lýsir hins vegar ofbeldi af hálfu Grants: „Mér leið óþægilega, hann setti hönd sína á læri mitt og ég man eftir því að hafa tafarlaust fært hönd hans.
Eftir að við töluðum saman í nokkrar sekúndur í viðbót greip hann í hálsinn á mér, að því er virtist til þess að reyna að kyrkja mig, sneri höfði mínu til þess að reyna að þvinga mig til þess að kyssa mig,“ sagði hún og kvaðst strax hafa neitað honum.
Hún bætti því við að Grant hafi meinað henni að yfirgefa íbúð hans og hann hafi sett pressu á hana að gista þar. „Ég var ekki nægilega hugrökk til þess að segja nei við hann.“
Konan bætti því við að Grant hafi einnig gripið í hönd hennar og fært hana í klof sitt, sem leiddi til þess að hún rauk inn á baðherbergi og fór að gráta.
Eftir að hún sofnaði í öðru svefnherbergi vaknaði hún morguninn eftir þar sem hún var sér óafvitandi með getnaðarlim Grants í hönd sér.
„Í öllum samböndum sem ég hef myndað í gegnum árin hef ég reynt mitt allra besta til að koma fram við konur af virðingu og vináttu og ég ætlaði mér aldrei að hegða mér á ósanngjarnan eða skaðlegan hátt gagnvart neinni konu.
Hverri þeirri sem hefur liðið illa eða þótt hún særð af mér þá vil ég segja að ég sé eftir því og biðst afsökunar frá dýpstu hjartarótum,“ skrifaði Grant í yfirlýsingu.