Pierre-Emerick Aubameyang, sóknarmaður Arsenal, virðist ekki vera á leið til spænska stórveldisins Barcelona á láni þar sem erfiðlega gengur fyrir félögin að komast að samkomulagi um hve hátt hlutfall af launum hans Börsungar myndu borga.
Sky Sports greinir frá því að Aubameyang hafi verið reiðubúinn að taka á sig launalækkun til þess að komast til Barcelona en að viðræður séu að sigla í strand.
Guillem Balague hjá BBC Sport segir að Barcelona sé ekki af baki dottið en tíminn er þó naumur og líkurnar á skiptunum fari því hverfandi.
Aubameyang var mættur til Barcelona, sem vakti furðu forsvarsmanna Arsenal, en samkvæmt Sky Sports var hann þó ekkert búinn að ræða við forsvarsmenn Barcelona þrátt fyrir að vera þar í borg.