Óttar aftur til Feneyja

Kári Árnason og Óttar Magnús Karlsson á góðri stundu.
Kári Árnason og Óttar Magnús Karlsson á góðri stundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson hefur verið kallaður aftur til A-deildarfélagsins Venezia eftir að hafa leikið sem lánsmaður hjá C-deildarfélaginu Siena fyrri hluta tímabilsins.

Óttar Magnús, sem er 24 ára gamall sóknarmaður, lék 19 leiki fyrir Siena og skoraði í þeim tvö mörk.

Tækifæri Óttars Magnúsar voru af skornum skammti þegar Venezia lék í B-deild á síðasta tímabili og því er óljóst hvað tekur við hjá honum í framhaldinu.

Félagaskiptaglugginn á Ítalíu lokaði klukkan 19 í kvöld og getur Óttar Magnús því ekki fundið sér nýtt lið þar í landi en ekki er loku fyrir það skotið að hann haldi til annars lands þar sem félagaskiptagluggar eru enn opnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert