Panama setti mikla pressu á bæði Bandaríkin og Mexíkó í baráttunni um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta með því að sigra Jamaíka, 3:2, í úrslitakeppni Norður- og Mið-Ameríku í nótt.
Panama, sem lék í fyrsta sinn á HM í Rússlandi fyrir fjórum árum, er komið með 17 stig þegar 10 umferðum af fjórtán er lokið. Kanada er í vænlegri stöðu með 22 stig eftir sigur á Bandaríkjunum, 2:0, í gærkvöld, en Mexíkó, sem gerði 0:0 jafntefli við Kostaríka í nótt er með 18 stig eins og Bandaríkin.
Þrjú efstu liðin komast beint á HM í Katar en liðið í fjórða sæti fer í umspil. Kostaríka er með 13 stig í fimmta sætinu eftir jafnteflið í Mexíkó og er því enn með í baráttunni.
El Salvador með 9 stig, Jamaíka með 7 og Hondúras með 3 stig eiga ekki möguleika á að blanda sér í baráttuna á lokasprettinum.
Eric Davis og Azmahar Ariano skoruðu fyrir Panama í nótt, auk sjálfsmarks. Michail Antonio, leikmaður West Ham, og Andre Gray, leikmaður QPR, skoruðu mörkin fyrir Jamaíka.