París SG er úr leik í frönsku bikarkeppninni í knattspyrnu eftir ósigur gegn Nice í vítaspyrnukeppni í uppgjöri tveggja efstu liða frönsku 1. deildarinnar í kvöld.
Ekkert mark var skorað í framlengdum leik liðanna og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Lionel Messi og Kylian Mbappé skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum PSG en að lokum var það Nice sem hafði betur, 6:5, eftir sjö umferðir.
Nice mætir því Marseille í átta liða úrslitunum en þar mætast einnig Nantes - Bastia, Mónakó - Amiens og Bergerac - Versailles. Tvö síðastnefndu liðin leika í frönsku D-deildinni sem mun þar með eiga fulltrúa í undanúrslitum keppninnar.