Svava einnig til meistaranna?

Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með íslenska landsliðinu síðastliðið sumar.
Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með íslenska landsliðinu síðastliðið sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er á leið til Noregsmeistara Brann.

Þetta fullyrðir Orri Rafn Sigurðarson, lýsandi á Viaplay, á twitteraðgangi sínum í dag.

Svava Rós, sem er sóknarmaður, fékk sig lausa frá franska 1. deildarliðinu Bordeaux undir lok desember og kemur því á frjálsri sölu til Brann.

Brann er í raun nýstofnað lið en tók yfir lið Noregsmeistara Sandviken undir lok síðasta árs og spilar í framhaldinu undir merkjum Brann.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, samherji Svövu Rósar í íslenska A-landsliðinu og annar sóknarmaður, samdi á dögunum við Brann eftir að hafa komið frá sænska félaginu Hammarby.

Samkvæmt Orra Rafni hafði Vålerenga, sem leikur einnig í norsku úrvalsdeildinni og þar sem landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir er lykilmaður í vörninni, sömuleiðis áhuga á Svövu Rós en hún hafi að lokum valið Brann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert