Tottenham lánar enn ein stórkaupin út

Giovani Lo Celso hefur verið lánaður til Spánar.
Giovani Lo Celso hefur verið lánaður til Spánar. AFP

Argentínski miðjumaðurinn Giovani Lo Celso hefur verið lánaður frá enska knattspyrnufélaginu Tottenham Hotspur til spænska félagsins Villarreal, þar sem hann mun spila til loka tímabilsins.

Lo Celso var keyptur á 32 milljónir evra frá París Saint-Germain í janúar 2020 en hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar hjá Lundúnafélaginu.

Í dag hefur Tottenham lánað Tanguy Ndombele, dýrasta leikmann sem liðið hefur keypt frá upphafi, aftur til Lyon, Bryan Gil til Valencia og nú Lo Celso til Villarreal.

Gil, sem var keyptur frá Sevilla síðasta sumar á 25 milljónir evra, og Lo Celso eru báðir á meðal dýrustu leikmanna sem Tottenham hefur keypt.

Þá er reiknað með því að Dele Alli verði seldur til Everton fyrir lok félagaskiptagluggans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert