Franski framherjinn Kylian Mbappé verður launahæsti knattspyrnumaður heims þegar hann kemur til liðs við Real Madrid frá París SG í sumar.
Þetta er fullyrt í þýska blaðinu Bild í dag en þara er sagt að samningur Frakkans liggi fyrir í smáatriðum. Samningurinn sé til fimm ára og árslaunin nemi því sem samsvarar 7,2 milljörðum íslenskra króna.
Samningur hans við PSG rennur út í sumar og Real Madrid þarf því ekki að greiða fyrir hann. Sagt er að beðið verði með að tilkynna um væntanlega komu hans til spænska félagsins fyrr en eftir að félögin tvö mætast í Meistaradeild Evrópu en leikir þeirra í sextán liða úrslitunum fara fram 15. febrúar og 9. mars.
Bild segir að PSG sé nú búið að sætta sig við að hann yfirgefi félagið í sumar. Þar er Mbappé aðeins þriðji launahæstur, á eftir þeim Lionel Messi og Neymar, en PSG hafi verið tilbúið til að brúa það bil ef hann yrði um kyrrt.