Blöskrar kaup á nýjum leikmanni og hættir stuðningi

David Goodwillie í baráttu við Aron Einar Gunnarsson í leik …
David Goodwillie í baráttu við Aron Einar Gunnarsson í leik U21-árs landsliða Skotlands og Íslands á sínum tíma. Ómar Óskarsson

Skoski glæpasagnahöfundurinn Val McDermid segist vera hætt að styðja knattspyrnufélagið Raith Rovers eftir að liðið samdi við sóknarmanninn David Goodwillie í gær. Hann var úrskurðaður nauðgari og fyrirskipað að greiða fórnarlambi sínu bætur í einkamáli árið 2017.

Goodwillie fór ekki fyrir rétt þar sem saksóknurum þótti ekki næg sönnunargögn til staðar til þess að fara með sakamál fyrir dóm.

McDermid blöskrar þó kaupin og kveðst hætt að vera stuðningsmaður eftir að hafa stutt Raith Rovers alla ævi og að sömuleiðis muni hún ekki lengur vera aðalstyrktaraðili þess frá og með næsta tímabili, en auglýsing með heimasíðu hennar hefur verið framan á keppnistreyju félagsins frá árinu 2014.

„Nú í morgun ákvað ég að hætta ævilöngum stuðningi mínum við Raith Rovers vegna kaupa liðsins á nauðgaranum David Goodwillie.

Ég hef þá sagt upp samningi frá og með næsta tímabili um að vera styrktaraðili vegna þessara ógeðslegu og fyrirlitlegu kaupa. Þetta gjöreyðileggur allar fullyrðingar um að félagið sé samfélags- eða fjölskylduklúbbur.

Goodwillie hefur aldrei lýst yfir örðu af eftirsjá vegna nauðgunarinnar sem hann framdi. Viðurvist hans á Starks Park er ljótur blettur á félaginu.

Ég mun sömuleiðis rífa ársmiðann minn. Þetta kremur í mér hjartað og ég veit að margir aðrir aðdáendur eru sama sinnis“, skrifaði McDermid á twitteraðgangi sínum í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert