Börsungar þurfa að skilja einn eftir

Ferran Torres, lengst til vinstri, og Dani Alves (nr. 8), …
Ferran Torres, lengst til vinstri, og Dani Alves (nr. 8), eru á meðal þeirra leikmanna sem gætu þurft að sitja heima þegar leikir í Evrópudeildinni fara fram. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona mun ekki geta teflt öllum þeim fjórum leikmönnum sem það fékk til liðs við sig í janúar upp í Evrópudeildinni vegna reglna keppninnar um skráningu nýrra leikmanna.

Samkvæmt reglunum mega lið aðeins skrá þrjá nýja leikmenn í hóp sinn fyrir útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar sem fer af stað um miðjan mánuðinn.

Dani Alves, Ferran Torres, Adama Traoré og Pierre-Emerick Aubameyang gengu allir til liðs við Börsunga í janúar og því þarf einn þeirra að gera sér það að góðu að taka ekki þátt í keppninni.

Barcelona mætir Napoli í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar eftir að hafa fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu í desember. Þar hafnaði liðið í þriðja sæti í E-riðli á eftir Bayern München og Benfica.

Frestur til þess að skila inn uppfærðum leikmannalista vegna Evrópudeildarinnar til UEFA rennur út á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert