Maurizio Zamparini, fyrrverandi forseti ítalska knattspyrnufélagsins Palermo, er látinn, áttræður að aldri.
Zamparini var lagður inn á spítala vegna lífhimnubólgu á dögunum og lést á spítalanum í gærkvöldi.
Hann var litríkur karakter sem leiddi Palermo aftur upp í ítölsku A-deildina. Zamparini keypti félagið sumarið 2002 og árið 2004 var liðið komið upp í A-deild eftir 31 árs fjarveru.
Liðið komst á árunum á eftir nokkrum sinnum í Evrópudeildina, sem þá hét UEFA-bikarinn, og státaði sig af fjölda sterkra leikmanna.
Þar á meðal voru ítölsku landsliðsmennirnir Fabio Grosso, Simone Barone, Andrea Barzagli og Cristian Zaccardo, sem voru allir á mála hjá félaginu þegar þeir urðu heimsmeistarar með Ítalíu sumarið 2006.
Eftir níu ár í A-deildinni féll Palermo aftur niður í B-deild árið 2013 en komst ári síðar aftur upp í A-deildina.
Eftir það flakkaði liðið upp og niður A og B-deildirnar en var svo dæmt niður í D-deild árið 2019 í kjölfar gífurlegra fjárhagsvandræða sem Zamparini skildi liðið eftir í þegar hann seldi félagið í nóvember 2018.
Liðið leikur nú í C-deild.
Zamparini hikaði ekki við að reka knattspyrnustjóra þegar hann var forseti Palermo enda rak hann alls 28 stjóra á árunum 2002 til 2013.