Bakvörðurinn reyndi Dani Alves fær ekki að spila með Barcelona í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu þó hann sé kominn aftur til félagsins.
Samkvæmt reglum UEFA mega félög ekki skrá fleiri en þrjá nýkeypta leikmenn í útsláttarkeppnina. Barcelona fékk til sín fjóra nýja leikmenn í janúar en hinir eru Ferran Torres sem kom frá Manchester City, Adama Traoré sem kom frá Wolves og Pierre-Emereck Aubameyang sem kom frá Arsenal.
Barcelona þarf að skila inn leikmannalistanum til UEFA á morgun en samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur knattspyrnustjórinn Xavi þegar ákveðið hver fjórmenninganna þarf að sleppa Evrópuleikjunum. Það sé hinn 38 ára gamli Alves sem er kominn aftur til félagsins eftir sex ára fjarveru en hann hefur leikið með Sao Paulo í Brasilíu síðustu tvö árin.
Barcelona mætir Napoli í fyrstu umferð útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar dagana 17. og 24. febrúar.