Egyptar unnu gestgjafana í vítaspyrnukeppni

Egyptar fagna innilega eftir að hafa tryggt sér sæti í …
Egyptar fagna innilega eftir að hafa tryggt sér sæti í úrslitaleiknum. AFP

Egyptaland er búið að tryggja sér sæti í úrslitaleik Afríkumótsins í knattspyrnu í Kamerún eftir að hafa slegið heimamenn út eftir vítaspyrnukeppni í undanúrslitum í kvöld.

Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma og sömuleiðis að lokinni framlengingu. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Vincent Aboubakar skoraði úr fyrstu spyrnu Kamerún en þrír liðsfélagar hans klúðruðu sínum spyrnum á meðan Egyptar skoruðu úr öllum þremur spyrnum sínum og unnu þar með 3:1.

Zizo, Mohamed Abdelmonem og Mohanad Lasheen skoruðu úr spyrnum Egypta á meðan Harold Moukoudi, James Lea Siliki og Clinton N’Jie klúðruðu sínum spyrnum fyrir Kamerún.

Gabaski í marki Egypta varði spyrnurnar frá Moukoud og Lea Siliki og spyrna N’Jie fór framhjá markinu.

Egyptaland mætir Senegal í úrslitaleik Afríkumótsins á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert