Skoski knattspyrnumaðurinn David Goodwillie, sem var úrskurðaður nauðgari og fyrirskipað að greiða fórnarlambi sínu bætur í einkamáli árið 2017, mun ekki spila fyrir skoska félagið Raith Rovers þrátt fyrir að hafa aðeins samið við það síðastliðinn mánudag.
Tveir stjórnarmenn félagsins hættu í kjölfarið, styrktaraðilar hættu stuðningi sínum og kvennalið þess hófu að vinna að því að segja alfarið skilið við félagið.
Fyrirliði meistaraflokks kvenna, Tyler Rattray, sagðist til að mynda vera hætt hjá félaginu þar sem hún hygðist ekki klæðast sömu treyju og Goodwillie.
John Sim, stjórnarformaður Raith Rovers, hefur nú gefið það út að Goodwillie muni ekki spila fyrir karlaliðið og að það hafi verið mistök að semja við hinn 32 ára gamla sóknarmann.
„Við lærðum erfiða en dýrmæta lexíu. Við sjáum sárlega eftir því að hafa samið við Goodwillie,“ sagði Sim meðal annars í yfirlýsingu.
Þar bætti hann því við að nú verði farið yfir samninginn við Goodwillie og reynt að komast að ásættanlegri niðurstöðu þar að lútandi, en hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning á mánudag.