Mané borgaði flug og aðgöngumiða 50 stuðningsmanna

Sadio Mané er með hjartað á réttum stað.
Sadio Mané er með hjartað á réttum stað. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður Liverpool og senegalska landsliðsins í knattspyrnu, greiddi fyrir flugmiða og aðgöngumiða 50 stuðningsmanna Senegal á leik liðsins gegn Búrkína Fasó í undanúrslitum Afríkumótsins í Kamerún í gærkvöldi.

Senegal vann leikinn 3:1 og tryggði sér þannig sæti í úrslitaleik mótsins, þar sem annað hvort heimamenn í Kamerún eða Egyptaland bíða.

Mané, sem skoraði eitt mark og lagði upp annað í leiknum í gær, borgaði fyrir allt saman úr eigin vasa og hefur lofað því að hann muni gera slíkt hið sama fyrir fleiri stuðningsmenn fyrir úrslitaleikinn á sunnudag.

Ganversku íþróttablaðamennirnir Rahman Osman og Saddick Adams greindu frá þessu á twitteraðgöngum sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert