Salah er ekkert sérstakur

Mohamed Salah hefur ekki tekist að hrífa Vincent Aboubakar.
Mohamed Salah hefur ekki tekist að hrífa Vincent Aboubakar. AFP

Vincent Aboubakar, fyrirliði kamerúnska landsliðsins í knattspyrnu, skaut föstum skotum að Mohamed Salah, leikmanni Liverpool og fyrirliða Egyptalands, á blaðamannafundi í morgun.

Kamerún og Egyptaland mætast í undanúrslitum Afríkumótsins síðar í kvöld í Yaoundé í Kamerún en það lið sem fer með sigur af hólmi mætir Senegal í úrslitaleik.

Salah hefur verið frábær fyrir Liverpool á Englandi það sem af er tímabili og er markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 16 mörk og 9 stoðsendingar í 20 leikjum.

„Salah er að eiga frábært tímabil í ensku úrvalsdeildinni og hann hefur líka spilað mjög vel fyrir Egyptaland í Afríkumótinu,“ sagði Aboubakar.

„Ég óska honum alls hins besta og megi betra liðið vinna. Persónulega finnst mér hann ekkert sérstakur og ég er að tala í fullri alvöru.

Ef ég væri hrifinn af honum sem leikmanni myndi ég segja það hreint út. Hann hefur einfaldlega ekki hrifið mig. Hann skorar mikið en það vantar mikið upp á í öðrum þáttum leiksins.

Hann er að spila með frábæru liði sem þekkir hann út og inn sem hjálpar honum. Hann er ekki nálægt leikmanni eins og Kylian Mbappé sem dæmi,“ bætti Aboubakar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert