Þarf vonandi ekki að upplifa svona aftur

Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði undir í Noregi á dögunum.
Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði undir í Noregi á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði undir eins árs samning við meistaralið Brann í Noregi á dögunum með möguleika á eins árs framlengingu en Svava þekkir vel til í Noregi eftir að hafa leikið með Röa í eitt tímabil árið 2018 þar sem hún skoraði 14 mörk í 21 leik og var einn besti leikmaður deildarinnar.

Alls á hún að baki 103 leiki í efstu deild með Val og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 26 mörk.

„Það er mjög gott að vera komin aftur til Noregs og ég er virkilega ánægð með þetta skref eftir erfitt síðasta ár,“ sagði Svava Rós.

„Ég frétti fyrst af áhuga Brann fyrir nokkru og ég tók mér góðan tíma í að taka ákvörðun. Að endingu ákvað ég að semja við Brann og ég er mjög sátt með mína ákvörðun. Það er ákveðin uppbygging í gangi hjá félaginu og þeir eru sem dæmi búnir að sameinast karlaliðinu í bænum. Umgjörðin hérna er mjög góð og hún á bara eftir að batna.

Þeir ætla sér stóra hluti í framtíðinn og eins er ég mjög spennt fyrir því að vinna með þjálfara liðsins, Eirik Homeland. Hann er með skýra sýn og góðar hugmyndir um það hvernig ég mun nýtast liðinu sem best og það hjálpar alltaf þegar maður finnur strax fyrir ákveðnu trausti hjá þjálfaranum,“ sagði Svava sem á að baki 30 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

Lærdómsríkur tími

Svava Rós lék síðast með Bordeaux í Frakklandi þar sem hún upplifði mjög erfiða tíma og fékk engin tækifæri eftir að nýr þjálfari tók við liðinu.

„Ég ætla ekki að ganga svo langt og segja að ég sé þakklát fyrir það sem ég upplifði í Frakklandi en þetta var klárlega mjög lærdómsríkur tími. Ég kem út úr þessari lífsreynslu sem sterkari einstaklingur og betri leikmaður að mínu mati. Það er alltaf erfitt að takast á við svona mótlæti, sem maður hefur litla sem enga stjórn á, en vonandi er maður búinn með þennan pakka og þarf ekki að upplifa svona aftur.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert