Þurftu að taka leikmenn af velli vegna kulda

Luis López markvörður Hondúras ver skot í leiknum við Bandaríkin. …
Luis López markvörður Hondúras ver skot í leiknum við Bandaríkin. Hann varð að hætta í hálfleik vegna kulda. AFP

Óvenjulega aðstæður voru í Minnesota í Bandaríkjunum í nótt þegar Bandaríkin tóku á móti Hondúras í undankeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta.

Þegar flautað var til leiks klukkan 18.30 um kvöldið að staðartíma var 14 gráðu frost á celsíus og með vindkælingu var frostið mælt 25 gráður.

Þetta var meira en nokkrir leikmanna Hondúras, sem er í hitabelti Mið-Ameríku, gátu þolað og þjálfari liðsins staðfesti eftir leikinn að tvær af þremur innáskiptingum sem hann gerði í hálfleik hafi verið vegna þess að viðkomandi leikmenn hefðu ekki getað haldið áfram vegna kuldans. Annar þeirra var markvörðurinn Luis Lopez.

Bandaríkin unnu leikinn 3:0 og stigu stórt skref í átt að lokakeppni HM en Hondúras átti fyrir leikinn enga möguleika í þeirri baráttu.

Áhorfendur fjölmenntu þrátt fyrir kuldann.
Áhorfendur fjölmenntu þrátt fyrir kuldann. AFP

„Ég ætla ekki að reyna að greina lið mitt, leikmennina og frammistöðu þeirra. Það er útilokað við þessar kringumstæður sagði Dario Gómez þjálfari Hondúras eftir leikinn. „Leikmenn mínir eru núna inn í klefa þar sem þeir eru að fá aðhlynningu vegna ofkælingar og margir þeirra eru sárþjáðir," sagði þjálfarinn ennfremur.

Gregg Berhalter þjálfari bandaríska liðsins sagði erfitt fyrir sig að meta áhrifin sem þessar aðstæður höfðu á mótherjana.

„Við útveguðum leikmönnum og starfsliði Hondúras og dómurum leiksins fatnað og höfuðbúnað til að klæðast við svona aðstæður og reyndum að gera umhverfið sem öruggast. Þegar við förum til þessara landa og spilum þar í 35 stiga hita og óbærilegum raka, þá glíma okkar menn við ofþornun, krampa og þreytu. Svona eru bara aðstæður sem þarf að glíma við í þessari keppni," sagði Berhalter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert