Vill finna gömlu góðu Berglindi aftur

Berglind Björg Þorvaldsdóttir gekk til liðs við meistaralið Brann í …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir gekk til liðs við meistaralið Brann í Noregi á byrjun janúar. mbl.is/Unnur Karen

Knattspyrnukonurnar Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir vonast báðar til þess að finna sitt gamla form hjá meistaraliði Brann í norsku úrvalsdeildinni á komandi keppnistímabili.

Berglind, sem er nýorðin þrítug, gekk til liðs við norska félagið hinn 10. janúar eftir hálft tímabil í herbúðum Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni.

Berglind hefur einnig leikið með Le Havre í Frakklandi, AC Milan og Verona á Ítalíu og PSV í Hollandi á atvinnumannsferli sínum en hún á að baki 190 leiki í efstu deild með ÍBV og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 137 mörk.

„Þetta er besta liðið í Noregi og þær unnu deildina með miklum yfirburðum á síðustu leiktíð,“ sagði Berglind Björg í samtali við Morgunblaðið.

„Ég horfði á nokkra leiki hjá þeim á síðustu leiktíð og þetta er frábært lið með mjög sterka leikmenn. Þær verða í Meistaradeildinni á næstu leiktíð og það er mikill metnaður innan félagsins að ná eins langt og mögulegt er í öllum keppnum. Mér stóð til boða að vera áfram hjá Hammarby í Svíþjóð en þegar Brann hafði samband þá fannst mér tækifærið það gott að ég var ekki tilbúin að sleppa því.

Það heillaði mig mikið að reyna fyrir mér í Meistaradeildinni og mig langaði líka að komast aftur í félag sem er að berjast um titla. Við vorum ekki alveg á þeim stað í Hammarby og ég var spennt fyrir því að komast aftur í þannig umhverfi þar sem krafan er að vinna hvern einasta leik,“ sagði Berglind sem á að baki 57 A-landsleiki og níu mörk.

Blússandi sóknarbolti

Berglind hefur leikið í atvinnumennsku frá árinu 2020 þar sem gengið hefur verið upp og ofan.

„Ég skrifaði undir tveggja ára samning hérna í Noregi og ég ætla mér að vera hérna næstu tvö árin. Ég er ekki að hugsa um næstu skref á ferlinum heldur vil ég fyrst og fremst reyna að finna gömlu góðu Berglindi aftur. Þessi síðustu ár í atvinnumennskunni hafa ekki gengið jafn vel og ég hafði reiknað með.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgnblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert