Sigur í fyrsta leik Lampards – auðvelt hjá City

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, fékk draumabyrjun í dag.
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, fékk draumabyrjun í dag. AFP

Everton hafði betur gegn Brentford í úrvalsdeildarslag í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í fyrsta leik Franks Lampards við stjórnvölinn hjá Liverpool-liðinu. Úrvalsdeildarlið Manchester City, Crystal Palace og Norwich City komust einnig áfram en Wolverhampton Wanderers er úr leik.

Yerry Mina kom Everton á bragðið eftir rúmlega hálftíma leik þegar hann skallaði hornspyrnu Demarai Gray frá vinstri af krafti í netið af stuttu færi.

Snemma í síðari hálfleik tvöfaldaði Richarlison forystuna með góðu skoti eftir frábæra stungusendingu landa hans frá Brasilíu, Allan.

Skömmu síðar minnkaði Brentford muninn þegar Ivan Toney skoraði úr vítaspyrnu sem hann hafði sjálfur fiskað.

Eftir rúmlega klukkutíma leik skoraði Mason Holgate þegar hann fékk boltann í sig eftir misheppnaðan skalla varnarmanns Brentfords í kjölfar hornspyrnu Gray frá hægri.

Í uppbótartíma rak varamaðurinn Andros Townsend svo smiðshöggið með góðu skoti við vítateigslínuna.

Staðan orðin 4:1 og reyndust það lokatölur.

Yerry Mina fagnar marki sínu í dag.
Yerry Mina fagnar marki sínu í dag. AFP

Englandsmeistarar Man. City lentu þá ekki í neinum vandræðum með topplið B-deildar, Fulham.

Það voru þó gestirnir sem náðu forystunni strax á fjórðu mínútu þegar ungstirnið Fabio Carvalho stýrði laglegri fyrirgjöf Harry Wilson í netið af stuttu færi.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Ilkay Gündogan metin fyrir City þegar hann fékk sendingu frá Riyad Mahrez og lagði boltann í netið af stuttu færi.

John Stones kom City svo yfir á 13. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Kevin De Bruyne frá vinstri.

Á 53. mínútu skoraði Mahrez úr vítaspyrnu og bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki City fjórum mínútum síðar. Wilson átti þá misheppnaða sending til baka, De Bruyne geystist fram, lagði boltann til hliðar á Mahrez og hann lagði boltann í Tim Ream þaðan sem hann fór í netið.

4:1 sigur City því niðurstaðan.

Kevin De Bruyne og Riyad Mahrez fagna marki þess síðarnefnda.
Kevin De Bruyne og Riyad Mahrez fagna marki þess síðarnefnda. AFP

Crystal Palace afgreiddi D-deildarlið Hartlepool United með tveimur mörkum snemma leiks.

Fyrst skoraði Marc Guéhi á fjórðu mínútu eftir fyrirgjöf Michael Olise og Olise skoraði svo sjálfur á 22. mínútu eftir undirbúning Conor Gallagher.

Norwich City vann þá sterkan 1:0 útisigur á Úlfunum. Sigurmarkið skoraði Skotinn Kenny McLean í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir undirbúning landa síns Billy Gilmour.

Southampton á í vandræðum með B-deildarlið Coventry City þar sem staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma og því er framlenging hafin.

Alls hófust átta leikir í 4. umferðinni klukkan 15 og er sjö þeirra lokið:

Everton – Brentford 4:1

Manchester City – Fulham 4:1

Crystal Palace – Hartlepool United 2:0

Wolverhampton Wanderers – Norwich City 0:1

Peterborough United – QPR 2:0

Stoke City – Wigan Athletic 2:0

Huddersfield Town – Barnsley 1:0

Southampton – Coventry City 1:1 (framlenging í gangi)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert