Real Madrid náði sex stiga forskoti á toppi spænsku 1. deildarinnar í fótbolta með 1:0-heimasigri á Granada í kvöld.
Real var mun sterkari aðilinn en það reyndist erfitt að finna leið framhjá Luis Maximiano í marki Granada sem átti afar góðan leik. Það tókst þó á 74. mínútu þegar Marco Asensio tryggði sigurinn.
Real er með 53 stig, sex stigum meira en Sevilla sem hefur gert þrjú jafntefli í röð. Real Betis er í þriðja með 40 stig og Barcelona í fjórða sæti með 38 stig.