Senegal er Afríkumeistari karla í fótbolta í fyrsta sinn eftir sigur á Egyptalandi í úrslitaleik í Kamerún í kvöld. Úrslitin réðust í vítakeppni eftir markalausan leik.
Senegal var sterkari aðilinn stærstan hluta leiks og Sadio Mané, leikmaður Liverpool, fékk besta færið strax á 7. mínútu en Gabaski í marki Egyptalands varði frá honum víti.
Þrátt fyrir að hafa fengið fleiri góð færi tókst Senegal ekki að skora í venjulegum leiktíma né framlengingu og því réðust úrslitin í vítakeppni.
Þar skoraði Senegal úr fjórum af fimm spyrnum en Egyptaland aðeins úr tveimur af fjórum. Mané bætti upp fyrir vítið í venjulegum leiktíma með því að skora sigurmarkið í vítakeppninni.
Mo Salah, fyrirliði Egyptalands og stjörnuleikmaður Liverpool, lék allan leikinn með Egyptalandi en tók ekki vítaspyrnu.