„Besti dagur og besti titill lífs míns“

Sadio Mané vígreifur með Afríkumeistaratitilinn í gærkvöldi.
Sadio Mané vígreifur með Afríkumeistaratitilinn í gærkvöldi. AFP

Sóknarmaðurinn Sadio Mané segir sigurinn með Senegal á Afríkumótinu í knattspyrnu í gærkvöldi vera hápunkt ferils síns.

Mané hefur meðal annars unnið Meistaradeild Evrópu og ensku úrvalsdeildina með félagsliði sínu Liverpool en hann metur sigurinn með þjóð sinni í gær best.

„Þetta er besti dagur lífs míns og besti titill lífs míns. Ég vann Meistaradeild Evrópu og nokkra aðra titla en þessi titill er sá sérstaki fyrir mér.

Hann er mér mikilvægastur. Ég er ánægður með sjálfan mig og gleðst fyrir hönd þjóðar minnar og allrar fjölskyldu minnar,“ sagði Mané eftir sigurinn í gærkvöldi

Mané, sem var valinn besti leikmaður Afríkumótsins, klúðraði vítaspyrnu snemma í leiknum en lét það þó ekki stöðva sig í að stíga upp á ögurstundu og tryggja Senegal 4:2-sigur í vítaspyrnukeppni með því að skora af gífurlegu öryggi úr síðustu spyrnu liðsins.

„Þegar ég klúðraði fyrri vítaspyrnunni var það mjög mikið áfall fyrir mig. En liðsfélagar mínir komu til mín og sögðu: „Sadio, við töpum saman og við vinnum saman. Við þekkjum þig. Þú hefur gert svo margt fyrir okkur, haltu bara áfram.“

Það gaf mér styrk og ég tel að orð þeirra hafi gert gæfumuninn þegar ég tók síðari vítaspyrnuna. Allir strákarnir komu til mín og sögðu: „Sadio, við treystum þér.“ Það gaf mér meiri hvatningu. Titillinn tilheyrir öllu Senegal-liðinu, allir eiga hann skilið,“ sagði hann einnig.

Um var að ræða fyrsta Afríkumeistaratitil Senegal í sögunni, en liðið hafði í tvígang tapað í úrslitum mótsins, þar á meðal á síðasta Afríkumóti á undan, sumarið 2019, þegar Alsír tryggði sér titilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert