Kasper Dolberg, framherji Nice og danska karlalandsliðsins í knattspyrnu, greindist með kórónuveiruna í þriðja sinn á dögunum.
Það er Tipsbladet sem greinir frá þessu. Dolberg, sem er 24 ára, greindist tvívegis með veiruna árið 2020 þegar hún skaut fyrst upp kollinum í Evrópu en í fyrsta skiptið sem hann greindist fann hann ekki fyrir neinum einkennum.
Í annað sinn sem hann smitaðist var hann veikur í nokkra daga og það tók hann tíma að jafna sig eftir veiruna.
Dolberg greindist svo á nýjan leik á dögunum sem gerði það að verkum að hann missti af leik Nice og Clermont Foot í frönsku 1. deildinni í gær.
Leiknum lauk með 1:0-sigri Clermont Foot en Nice er í þriðja sæti frönsku 1. deildarinnar með 42 stig en Dolberg hefur skorað sex mörk í 18 leikjum fyrir félagið í deildinni á tímabilinu.