Markmiðið að vinna Meistaradeildina með Newcastle

Bruno Guimaraes er öflugur miðjumaður.
Bruno Guimaraes er öflugur miðjumaður. AFP

Brasilíski miðjumaðurinn Bruno Guimaraes telur enska knattspyrnufélagið Newcastle United geta orðið stórveldi á heimsvísu.

Guimaraes, sem er landsliðsmaður Brasilíu, var keyptur á 35 milljónir punda frá franska félaginu Lyon undir lok síðasta mánaðar.

Kaupin á honum eru liður í því að styrkja Newcastle, sem er ríkasta félag heims eftir að sádi-arabískir fjárfestar tóku það yfir í október síðastliðnum, til muna og hjálpa liðinu að berjast um titla á næstu árum.

Þetta er félag sem mun verða stórveldi í heimsfótboltanum. Þetta er sögufrægt félag með mikla hefð og fallega sögu.

Ég finn ekki fyrir neinum efa í tengslum við ákvörðun mína um að koma til Newcastle,“ sagði Guimaraes í samtali við NUFC TV.

Newcastle er sem stendur í harðri fallbaráttu í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en þó aðeins einu stigi frá öruggu sæti.

Guimaraes sagði að forsvarsmenn Newcastle hafi strax gert honum það ljós að fyrsta markmið væri að halda sæti sínu í deildinni.

„Þau voru mjög hreinskilinn hvað það varðar. Þau fóru ekki í felur með það að aðal markmiðið og áskorunin á þessu tímabili væri að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni.

En á næstu tímabilum er markmiðið að vera í Meistaradeild Evrópu og einn daginn vinna Meistaradeildina,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert