28 ára hættur með landsliðinu

Hakim Ziyech á að baki 40 landsleiki þar sem hann …
Hakim Ziyech á að baki 40 landsleiki þar sem hann skoraði 17 mörk. AFP

Marokkóski knattspyrnumaðurinn Hakim Ziyech er hættur að leika með landsliði þjóðar sinnar. 

Þetta tilkynnti hann í samtali við The Athletic. Ziyech, sem er 28 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2015.

Hann var ekki valinn í marakóska landsliðshópinn fyrir Afríkunótið sem fram fór í Kamerún og lauk á sunnudaginn.

„Ég er hættur að leika með marakóska landsliðinu,“ sagði Ziyech meðal annars í samtali við Athletic.

Vahid Halihodzic, landsliðsþjálfari Marokkó, hafði áður gagnrýnt leikmanninn fyrir hugarfar hans með landsliðinu.

„Hegðun hans í síðustu tveimur landsleikjum var langt frá því að vera ásættanleg,“ sagði Halihodzic í samtali við fjölmiðla í júní á síðasta ári.

„Hann er leiðtogi í liðinu og mikil fyrirmynd. Landsliðið er ofar öllu og hér eiga menn að leggja sig alla fram. Ef ekki þá verða menn ekki valdir,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert