Marokkóski knattspyrnumaðurinn Hakim Ziyech er hættur að leika með landsliði þjóðar sinnar.
Þetta tilkynnti hann í samtali við The Athletic. Ziyech, sem er 28 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2015.
Hann var ekki valinn í marakóska landsliðshópinn fyrir Afríkunótið sem fram fór í Kamerún og lauk á sunnudaginn.
„Ég er hættur að leika með marakóska landsliðinu,“ sagði Ziyech meðal annars í samtali við Athletic.
Vahid Halihodzic, landsliðsþjálfari Marokkó, hafði áður gagnrýnt leikmanninn fyrir hugarfar hans með landsliðinu.
„Hegðun hans í síðustu tveimur landsleikjum var langt frá því að vera ásættanleg,“ sagði Halihodzic í samtali við fjölmiðla í júní á síðasta ári.
„Hann er leiðtogi í liðinu og mikil fyrirmynd. Landsliðið er ofar öllu og hér eiga menn að leggja sig alla fram. Ef ekki þá verða menn ekki valdir,“ bætti þjálfarinn við.