Inter Mílanó varð í gærkvöld fyrsta liðið til að komast í undanúrslit ítölsku bikarkeppninnar í knattspyrnu með því að sigra Roma 2:0 á heimavelli.
Edin Dzeko gaf tóninn með marki strax á 2. mínútu leiksins og Alexis Sánchez innsiglaði sigurinn þegar hann bætti öðru við á 68. mínútu.
José Mourinho knattspyrnustjóri Roma fékk afar innilega móttökur í Mílanó en stuðningsfólk Inter fagnaði honum vel fyrir leikinn. Mourinho var stjóri Inter í tvö ár frá 2008 til 2010 og liðið varð ítalskur meistari í bæði skiptin og líka bikarmeistari seinna árið.
Líkur eru á grannaslag í undanúrslitunum því Inter mun mæta sigurvegaranum úr leik AC Milan og Lazio sem eigast við í kvöld.
Hinir leikir átta liða úrslitanna fara fram annað kvöld en þar leikur Atalanta við Fiorentina og Juventus við Sassuolo.