Franski knattspyrnumaðurinn Loic Rémy er genginn til liðs við tyrkneska úrvalsdeildarliðið Adana Demirspor og mun leika þar við hlið Birkis Bjarnasonar og Mario Balotelli.
Rémy er 35 ára gamall og skoraði sjö mörk í 30 landsleikjum fyrir Frakka á árunum 2009 til 2014. Hann lék með Chelsea í þrjú ár og varð enskur meistari með liðinu árið 2015 en spilaði einnig með QPR, Newcastle og Crystal Palace á Englandi.
Þá varð Rémy franskur meistari með Lyon í upphafi ferilsins og lék líka með Lens, Nice og Marseille áður en hann fór til Englands og síðan með Lille frá 2018 til 2020. Þar á undan lék Rémy með spænsku liðunum Las Palmas og Getafe.
Síðustu tvö ár hefur hann leikið með Rizespor í Tyrklandi og flytur sig því um set í landinu. Adana Demirspor er nýliði í tyrknesku úrvalsdeildinni en hefur komið skemmtilega á óvart í vetur og er í þriðja sæti, á eftir Trabzonspor og Konyaspor, og því í harðri baráttu um Evrópusæti.
Birkir Bjarnason og Mario Balotelli eru í lykilhlutverkum hjá liðinu. Birkir hefur spilað 21 af 24 leikjum í vetur og skorað þrjú mörk og Balotelli er markahæsti leikmaður liðsins með 10 mörk í 20 leikjum í deildinni.