Bayern framlengir samning Karólínu

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í landsleik.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir landsliðskona í knattspyrnu hefur framlengt samning sinn við þýska meistaraliðið Bayern München til ársins 2025.

„Það hefur verið frábært að sjá framfarirnar hjá Karólínu undanfarna mánuði. Hún er með ótrúlega sterkan karakter og við hlökkum til að vinna með henni næstu árin. Karólína á eftir að færa okkur mikla gleði," sagði Bianca Rech íþróttastjóri kvennadeildar Bayern á heimasíðu félagsins í dag.

„Ég er afar hamingjusöm og stolt að geta framlengt samning minn við Bayern München. Ég hlakka til að vera hérna áfram og halda áfram að læra og bæta mig eins og ég hef gert undanfarið ár. Ég er orðin sterkari og hef vaxið sem knattspyrnukona og sem manneskja á þessum tíma," sagði Karólína á heimasíðunni.

Karólína er tvítug og kom til Bayern frá Breiðabliki í árslok 2020. Hún hefur leikið níu leiki með liðinu í efstu deild og sex leiki í Meistaradeild Evrópu þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert