Aron Elís Þrándarson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið kjörinn leikmaður ársins hjá danska úrvalsdeildarfélaginu OB fyrir árið 2021.
Aron kom til OB frá Aalesund í Noregi í ársbyrjun 2020 og hefur verið í stóru hlutverki á miðjunni hjá liðinu síðan.
Í umfjöllun um útnefninguna á heimasíðu OB segir að Aron hafi átt flestar tæklingar og unnið boltann oftast af mótherjunum af öllum leikmönnum úrvalsdeildarinnar og frammistaða hans með OB hafi skilað honum sæti í íslenska landsliðshópnum.
„Hann er hávaxinn, líkamlega sterkur, góður í loftinu og berst sem ekta íslenskur víkingur," segir í umfjölluninni um Aron en hann er einmitt uppalinn hjá Víkingi og lék þar í fjögur ár í meistaraflokki áður en hann fór í atvinnumennsku í Noregi árið 2015.