Get loksins spilað án sársauka

Viðar Örn Kjartansson í landsleik í haust.
Viðar Örn Kjartansson í landsleik í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson landsliðsmaður í knattspyrnu spilar í kvöld sinn fyrsta leik í byrjunarliði Vålerenga í Noregi síðan í byrjun nóvember en hann hefur glímt við meiðsli í fæti frá þeim tíma.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Vålerenga. Viðar hafi æft helmingi meira en áður frá því æfingar hófust að nýju eftir áramótin og lögð hafi verið áhersla á að fá hann góðan af meiðslunum.

„Það er frábær tilfinning að geta spilað án sársauka í fyrsta sinn í langan tíma. Ég viðurkenni að líkamlegt stand mitt hefur verið betra en ég vinn hörðum höndum að því á hverjum degi að verða í eins góðu formi og mögulegt er,"  segir Viðar á heimasíðu félagsins.

Hann verður í byrjunarliðinu í kvöld þegar Vålerenga mætir danska toppliðinu Midtjylland í æfingaleik í Portúgal en Óslóarliðið heldur aftur heim til Noregs á morgun eftir dvöl við æfingar í syðsta hluta Evrópu að undanförnu.

Keppni í norsku úrvalsdeildinni hefst 2. apríl en sex æfingaleikir eru á dagskrá Vålerenga fram að þeim tíma. Brynjar Ingi Bjarnason landsliðsmiðvörður frá Akureyri er orðinn liðsfélagi Viðars en hann kom til Vålerenga í vetur frá Lecce á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka