Fylkir vann Þrótt 2:1 í Lengjubikar kvenna í dag. Í hálfleik fór fram langþráð verðlaunaafhending Þróttar vegna sigurs þeirra í Reykjavíkurmótinu á dögunum.
Helga Valtýsdóttir Thors kom Fylki yfir eftir einungis fimm mínútna leik en Ragnheiður Ríkharðsdóttir jafnaði á 18. mínútu. Sigurmarkið kom ekki fyrr en á 78. mínútu en þá skoraði Helga sitt annað mark, í þetta skiptið úr vítaspyrnu.
Þetta var fyrsti leikur beggja liða í Lengjubikarnum þetta árið og fer Fylkir því á topp riðilsins, tímabundið hið minnsta.
Eins og áður sagði fór verðlaunaafhending Reykjavíkurmótsins fram í hálfleik en þrátt fyrir að hafa unnið mótið á dögunum, fékk Þróttur engin verðlaun. Knattspyrnuráð Reykjavíkur gleymdi að afhenda verðlaunin en gaf út afsökunarbeiðni og sagði að um mistök hafi verið að ræða.
Eðlilega var mikil umræða í samfélaginu um þetta óheppilega atvik en nú hefur Þróttur loks fengið verðlaunin sín afhent.