Þjóðverjinn tryggði Chelsea sinn fyrsta heimsmeistaratitil

Havertz skorar úr vítaspyrnunni.
Havertz skorar úr vítaspyrnunni. AFP

Þjóðverjinn Kai Havertz var hetja enska knattspyrnuliðsins Chelsea þegar hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleik heimsbikarsins í knattspyrnu í dag. Chelsea vann brasilíska liðið Palmeiras í framlengdum úrslitaleik.

Belginn Romelu Lukaku kom Chelsea yfir á 54. mínútu leiksins en Raphael Veiga jafnaði einungis 10 mínútum síðar. Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma svo gripið var til framlengingar.

Allt leit út fyrir að leikurinn færi alla leið í vítaspyrnukeppni en á 115. mínútu fékk Chelsea vítaspyrnu þegar dæmd var hendi á Luan. Havertz steig upp og skoraði úr spyrnunni og tryggði Chelsea þar með sinn fyrsta heimsmeistaratitil í sögu félagsins. Á síðustu mínútu leiksins fékk Luan svo að líta rauða spjaldið fyrir pirringsbrot á Kai Havertz.

Chelsea hafði einu sinni áður tekið þátt í keppninni en lið frá Evrópu verða að vinna Meistaradeildina til að fá þátttökurétt. Það var árið 2012 en þá tapaði liðið 1:0 fyrir brasilíska liðinu Corinthians í úrslitaleiknum. Það er í eina skiptið frá árinu 2006 sem evrópska lið keppninnar vinnur hana ekki.

Kai Havertz fagnar marki sínu af mikilli innlifun.
Kai Havertz fagnar marki sínu af mikilli innlifun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka