Þjóðverjinn Kai Havertz var hetja enska knattspyrnuliðsins Chelsea þegar hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleik heimsbikarsins í knattspyrnu í dag. Chelsea vann brasilíska liðið Palmeiras í framlengdum úrslitaleik.
Belginn Romelu Lukaku kom Chelsea yfir á 54. mínútu leiksins en Raphael Veiga jafnaði einungis 10 mínútum síðar. Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma svo gripið var til framlengingar.
Allt leit út fyrir að leikurinn færi alla leið í vítaspyrnukeppni en á 115. mínútu fékk Chelsea vítaspyrnu þegar dæmd var hendi á Luan. Havertz steig upp og skoraði úr spyrnunni og tryggði Chelsea þar með sinn fyrsta heimsmeistaratitil í sögu félagsins. Á síðustu mínútu leiksins fékk Luan svo að líta rauða spjaldið fyrir pirringsbrot á Kai Havertz.
Chelsea hafði einu sinni áður tekið þátt í keppninni en lið frá Evrópu verða að vinna Meistaradeildina til að fá þátttökurétt. Það var árið 2012 en þá tapaði liðið 1:0 fyrir brasilíska liðinu Corinthians í úrslitaleiknum. Það er í eina skiptið frá árinu 2006 sem evrópska lið keppninnar vinnur hana ekki.