Espanyol og Barcelona gerðu 2:2 jafntefli í borgarslag Barcelona-borgar í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Hinn ungi og efnilegi Pedri kom Barcelona yfir strax á annarri mínútu leiksins en Sergi Darder jafnaði fyrir Espanyol á 40. mínútu. Raúl de Tomás kom Espanyol yfir á 64. mínútu en í uppbótartíma hófst fjörið. Nicolás Melamed fékk þá gult spjald fyrir að brjóta á Gerard Piqué, sem var á gulu spjaldi fyrir, en þeir fengu svo báðir að líta sitt annað gula spjald í kjölfarið fyrir að fara haus í haus.
Á sjöttu mínútu uppbótartímans var það svo Hollendingurinn Luuk de Jong sem jafnaði metin fyrir Barcelona og bjargaði stigi fyrir sína menn.
Barcelona er í fjórða sæti deildarinnar með 39 stig en eftir mjög erfitt gengi í upphafi tímabils hefur Spánverjinn Xavi aðeins náð að rétta úr kútnum. Espanyol er í 13. sæti með 28 stig.