Jón Daði í byrjunarliðinu í fyrsta sinn

Jón Daði Böðvarsson er loks að komast aftur á ról.
Jón Daði Böðvarsson er loks að komast aftur á ról. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í byrjunarliði enska C-deildarliðsins Bolton Wanderers þegar liðið sækir Burton Albion heim í deildinni í kvöld.

Jón Daði gekk til liðs við Bolton á láni frá Millwall í janúar eftir að tækifærin voru af afar skornum skammti fyrri hluta tímabils hjá B-deildarliðinu.

Hann hefur spilað sex leiki til þessa með Bolton og komið inn á sem varamaður í þeim öllum. Gengið í leikjunum sex hefur verið gott enda hefur Bolton unnið fimm þeirra og gert eitt jafntefli.

Fær Jón Daði nú tækifærið í fremstu víglínu í sjöunda leiknum í slag tveggja liða um miðja deild, þó Bolton sé stöðugt að vinna sig upp töfluna og er tekið að nálgast umspilssætin í C-deildinni.

Leikurinn hófst klukkan 19.45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert