Krefjast framsals Robinhos og gefa út alþjóðlega handtökuskipun

Robinho þegar hann lék með AC Milan árið 2013.
Robinho þegar hann lék með AC Milan árið 2013. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Robinho var árið 2017 dæmdur í níu ára fangelsi á Ítalíu fyrir að hafa í félagi við aðra hópnauðgað konu á næturklúbbi í Mílanó árið 2013. Af þeim sökum hefur verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum.

Robinho lék með AC Milan þegar brotið átti sér stað og er nú búsettur í heimalandi sínu Brasilíu.

Hæstiréttur Ítalíu vísaði áfrýjun Robinho frá fyrir tæpum mánuði síðan og því stendur dómurinn.

Saksóknarar í Mílanó, sem hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum, hafa óskað eftir því við ítalska dómsmálaráðuneytið að það krefji brasilísk yfirvöld um að Robinho verði framseldur til Ítalíu svo hann geti hafið afplánun þar í landi.

Það er þó talið ólíklegt þar sem framsal er ekki leyfilegt samkvæmt brasilísku stjórnarskránni.

Þar sem búið er að gefa út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Robinho gæti hann hins vegar verið handtekinn, en til þess að það gerist þarf Robinho að ferðast frá Brasilíu til annars lands sem framselur fólk til Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert