Sergio Agüero, Argentínumaðurinn sem þurfti að hætta knattspyrnuiðkun vegna hjartavandamála, segist missa öndina þegar hann reyni að spila fótbolta þessa dagana.
Agüero kvartaði undan eymslum í brjósti í leik með Barcelona gegn Alavés í lok október síðastliðins og var hraðað á spítala þar sem hann gekkst undir ýmsar hjartarannsóknir.
Um miðjan desember tilkynnti Agüero svo formlega að hann þyrfti að leggja knattspyrnuskóna á hilluna vegna hjartavandamála.
„Þegar ég spila fótbolta þessa dagana missi ég andann. Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég muni nokkru sinni geta tekið spretti aftur. Mér líður bara eins og hjarta mitt virki ekki sem skyldi,“ sagði Agüero á twitch-streymissíðu sinni.