Hann er geimvera

Kylian Mbappé skoraði sigurmark París SG gegn Real Madrid í …
Kylian Mbappé skoraði sigurmark París SG gegn Real Madrid í gær. AFP

Gianluigi Donnarumma, markvörður knattspyrnuliðs París SG, hrósaði Kylian Mbappé, sóknarmanni liðsins í hástert eftir sigur París SG gegn Real Madrid í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í París í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri franska liðsins en Mbappé skoraði sigurmark leiksins þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Markið kom eftir frábært einstaklingsframtak en Donnarumma átti erfitt með að lýsa aðdáun sinni á samherja sínum í viðtali við Sky Sports í leikslok.

„Kylian er geimvera og ekki frá þessari plánetu,“ sagði Donnarumma.

„Ég æfi með honum á hverjum degi og það er ótrúlegt að sjá hvað hann getur gert með boltann. 

Við njótum þess allir að spila og æfa með honum og við erum fyrst og fremst þakklátir að fá að njóta krafta hans,“ bætti Donnarumma við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert