Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Marta skoraði sitt 114. mark fyrir Brasilíu í kvöld þegar brasilíska liðið gerði jafntefli við Evrópumeistara Hollands, 1:1, á alþjóðlega Frakklandsmótinu í Caen.
Allt stefndi í hollenskan sigur eftir að Lineth Beerensteyn skoraði eftir sendingu frá Sherida Spitse á 62. mínútu. Marta kom inn á sem varamaður í sínum 170. landsleik þegar tíu mínútur voru til leiksloka og jafnaði úr vítaspyrnu á 87. mínútu. Hún er markahæsti leikmaður Brasilíu í sögunni og sú næstleikjahæsta en Formiga hefur spilað 206 landsleiki.
Frakkland og Finnland eru hin tvö liðin á mótinu og mætast í kvöld.