Spánarmeistarar Atlético Madrid héldu áfram á sömu braut og undanfarnar vikur í kvöld og töpuðu óvænt á heimavelli fyrir botnliðinu Levante, 0:1, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu.
Þetta var sjötti ósigur Atlético í síðustu tíu leikjum í deildinni, ásamt því að tapa í bikarkeppninni, og nú er liðið dottið úr hópi fjögurra efstu því eftir úrslit kvöldsins er Barcelona fyrir ofan meistarana í fjórða sætinu.
Gonzalo Melero skoraði sigurmark Levante á 54. mínútu og þetta eru líkast til óvæntustu úrslit tímabilsins því Levante situr á botni deildarinnar með aðeins 14 stig þrátt fyrir þennan sigur og er tíu stigum frá því að komast úr fallsæti.
Real Madrid er með 54 stig, Sevilla 50, Real Betis 43, Barcelona 39, Atlético Madrid 39 og Real Sociedad 38 í sex efstu sætunum.