Lionel Messi fékk mikla gagnrýni eftir frammistöðu sína með París SG gegn Real Madrid í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í París í gær.
Messi, sem er 35 ára gamall, hefur oft spilað betur en í gær en Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid, varði meðal annars frá honum vítaspyrnu í stöðunni 0:0 á 62. mínútu.
Það kom hins vegar ekki að sök því Kylian Mbappé tryggði París SG dýrmætan sigur með frábæru einstaklingsframtaki þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma.
„Það er sorglegt að sjá Messi svona,“ segir meðal annars í umfjöllun franska fjölmiðilsins L'Equipe en hann fékk þrjá í einkunn hjá miðlinum fyrir frammistöðu sína í gær.
Messi hefur lítið sýnt með Parísarliðinu frá því hann gekk til liðs við það frá Barcelona síðasta sumar og aðeins tekist að skora tvö mörk í fjórtán leikjum í frönsku 1. deildinni á tímabilinu.