Hollendingurinn Virgil van Dijk var hæstánægður þegar hann ræddi við BT Sport eftir sigur Liverpool gegn Inter í Mílanó í kvöld í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.
Liverpool vann 2:0 og útlitið er gott hjá liðinu fyrir síðari leikinn sem verður á Anfield.
„Allir búast við að vera settir undir pressu í leikjum í Meistaradeildinni. Skilaboðin fyrir leik til okkar voru þau að við þyrftum að vera tilbúnir að þjást og leggja hart að okkur. Frammistaðan var mjög góð. Við héldum markinu hreinu og ánægjulegt kvöld á heildina litið. Við höfðum fyrir sigrinum og lögðum mikið á okkur. Við reyndum ýmislegt en Ítalirnir gerðu vel í vörninni. En Bobby (Firmino) fann svæði og skoraði flott mark,“ sagði van Dijk og hann var hrifinn af stemningunni á Ítalíu.
„Það er erfitt að spila hérna enda er Inter gott lið sem erfitt er að brjóta niður. Ég var mjög hrifinn af stemningunni og stuðningsmönnunum,“ sagði Virgil van Dijk lykilmaður Liverpool.