Skiptir Pogba um lið á Englandi?

Paul Pogba verður samningslaus í sumar.
Paul Pogba verður samningslaus í sumar. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er tilbúinn að spila áfram á Englandi þegar samningur hans við United rennur út í sumar. Það er Telegraph sem greinir frá þessu.

Pogba, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við United frá Juventus sumarið 2016 fyrir tæplega 90 milljónir punda og var um tíma dýrasti knattspyrnumaður heims.

Hann hefur fengið gagnrýni fyrir spilamennsku sína með United og bendir ýmislegt til þess að hann muni yfirgefa félagið á frjálsri sölu.

Miðjumaðurinn hefur verið orðaður við bæði Juventus og Real Madrid en hann gæti einnig haldið kyrru fyrir á Englandi.

Frakkinn þénar í kringum 290.000 pund á viku hjá United en það samsvarar um 49 milljónum íslenskra króna.

Það eru ekki mörg félög á Englandi sem ráða við þennan launakostnað en Manchester City og Newcastle gætu þó að öllum líkindum boðið Pogba samning enda eigendur félaganna á meðal þeirra ríkustu í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert