Óttar kominn til Kaliforníu

Óttar Magnús Karlsson fagnar marki í leik með Víkingi.
Óttar Magnús Karlsson fagnar marki í leik með Víkingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ítalska knattspyrnufélagið Venezia og bandaríska félagið Oakland Roots staðfestu í kvöld að Óttar Magnús Karlsson hefði verið lánaður frá Venezia til Oakland út þetta ár, eða fram í desember 2022.

Óttar hefur verið í röðum Venezia frá haustinu 2020 þegar hann kom þangað frá Víkingi í Reykjavík. Hann lék sjö leiki með liðinu og skoraði eitt mark tímabilið 2020-21 þegar Venezia vann sér sæti í A-deildinni og var síðan lánaður til C-deildarliðsins Siena í ágúst og fram í janúar.

Oakland leikur í bandarísku B-deildinni, svokallaðri USL-deild sem er fyrir neðan MLS-deildina. Liðið er frá borginni Oakland í Kaliforníu og er aðeins þriggja og hálfs árs gamalt, stofnað sumarið 2018, og fékk sæti í B-deildinni fyrir tímabilið 2021. Þar endaði það í fjórða sæti í Kyrrahafsriðli Vesturdeildar og féll út í undanúrslitum deildarinnar.

Keppni í deildinni hefst 12. mars og Oakland á þá útileik gegn Rio Grande Valley. Alls leika 27 lið í deildinni, þrettán í Vesturdeild og fjórtán í Austurdeild.

Óttar er 24 ára gamall og hefur aðeins leikið með Víkingi á Íslandi en undanfarin ár hefur hann einnig spilað með Mjällby og Trelleborg í Svíþjóð, Molde í Noregi og með unglingaliði Ajax í Hollandi.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert