Frábært gengi Birkis Bjarnasonar og félaga hans í Adana Demirspor hélt áfram í dag þegar liðið vann öruggan 3:0-útisigur á Gaziantep í tyrknesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Birkir kom inn á sem varamaður og var búinn að skora tæpum þremur mínútum síðar.
Íslenski landsliðsfyrirliðinn kom inn á í stöðunni 1:0 á 66. mínútu og tvöfaldaði forystu Adana strax á 69. mínútu.
Birkir hefur nú skorað fimm mörk í 23 leikjum í deild og bikar á tímabilinu fyrir Adana.
Britt Assombalonga skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark liðsins á 82. mínútu og innsiglaði öruggan sigur.
Adana, sem hefur gengið afskaplega vel að undanförnu, er áfram í þriðja sæti tyrknesku deildarinnar, sem gefur sæti í Evrópudeildinni, og er fimm stigum á eftir Konyaspor í öðru sætinu, sem gefur sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.