Pierre Emerick Aubameyang fór mikinn fyrir Barcelona þegar liðið vann öruggan sigur gegn Valencia í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag.
Leiknum lauk með 4:1-sigri Barcelona en Aubameyang skoraði tvívegis í leiknum, á 23. mínútu og 38. mínútu, en þetta voru hans fyrstu mörk fyrir félagið frá því hann kom til liðsins í janúarglugganum.
Frenkie de Jong og Pedri voru einnig á skotskónum fyrir Barcelona en Carlos Soler skoraði mark Valencia í upphafi síðari hálfleiks í stöðunni 0:3.
Barcelona er með 42 stig í fjórða sæti deildarinnar, 15 stigum minna en topplið Real Madrid, en Barcelona á leik til góða á Real Madrid.