Stig Inge Björnebye, íþróttastjóri danska knattspyrnufélagsins AGF, segir að Jack Wilshere, fyrrverandi landsliðsmaður Englands, fái engin „úrvalsdeildarlaun“ hjá félaginu.
Wilshere er óvænt genginn til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið og verður þar samherji íslensku landsliðsmannanna Jóns Dags Þorsteinssonar og Mikaels Andersons. Hann hefur verið án félags frá síðasta vori en Wilshere spilaði með Bournemouth á síðasta tímabili.
Götublaðið The Sun segir að hann fá fimm þúsund pund (um 850 þúsund íslenskar krónur) í laun á viku ásamt mögulegum bónusgreiðslum.
„Við gátum gengið frá fjárhagslega hluta samningsins. Hann kemur ekki til félagsins peninganna vegna. Við borgum að sjálfsögðu engin úrvalsdeildarlaun en við gátum gengið frá samningi sem tryggði okkur að málið væri í höfn," sagði Björnebye, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs, við norska blaðið VG.
Wilshere hefur fengið treyju númer 10 hjá AGF og gæti spilað sinn fyrsta leik á föstudag þegar liðið mætir Vejle í dönsku úrvalsdeildinni.
Wilshere varð þrítugur á nýársdag en hann lék 125 úrvalsdeildarleiki með Arsenal á árunum 2008 til 2018 og var lánaður til Bolton og Bournemouth á þeim tíma. Hann lék síðan með West Ham og Bournemouth. Wilshere lék 34 landsleiki fyrir England á árunum 2010 til 2016.